Samkeppnisstaða Íslands efld með markaðsverkefni á Spáni og S-Evrópu

Guðný Káradóttir, forstöðumaður matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar hjá Íslandsstofu hélt erindi um markaðsverkefni á Spáni og S-Evrópu á fundi Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins í dag. Íslandsstofa hefur séð um framkvæmd verkefnisins sem hefur það að markmiði að efla samkeppnisstöðu og auka verðmætasköpun saltaðra þorskafurða frá Íslandi. Með verkefninu hefur náðst árangur í að efla tengsl lykilhagsmunaaðila, innkaupa- og dreifingaraðila með fræðslu og kynningum. Að sama skapi hefur áhugi kaupenda á íslenskum fiski verið aukinn og núverandi og nýjir neytendur festir í sessi.

Guðný sagði kynninguna hafa náð bæði til erlendra innflytenda og dreifingaraðila sem og matreiðslumanna og neytenda í viðkomandi löndum. Slagorð verkefnisins er „Smakkaðu og deildu leyndarmálum íslenska þorsksins“ og er lögð áhersla á gæði, ferskleika og ábyrgar fiskveiðar í kynningunni, sem og íslenska þorpið. Fjölmargir viðburðir hafa verið haldnir erlendis, neytendum boðið upp á smakk, kynningar í kokkaskólum, þátttaka í saltfiskhátíðum, samstarf við veitingastaði o.fl.

Fram kom að vef- og samfélagsmiðlar hafa verið nýttir vel til að ná til neytenda og matreiðslumanna í löndunum þremur. Einnig hafi verið gerðar markaðsrannsóknir úti á mörkuðunum sem nýtast verkefninu og þátttökufyrirtækjunum í þeirra markaðsstarfi.

Sjá nánari upplýsingar um svið matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar á vef Íslandsstofu >>