Ferskir íslenskir vindar í Barcelona

 
Ferskir íslenskir vindar í Barcelona
 
Dagana 18.-19. febrúar verður haldin Íslandskynning í Barcelona til að efla viðskiptatengsl og auka áhuga á Íslandi. Áherslan er einkum á að kynna ferðaþjónustu, saltfiskafurðir, nýsköpun tengda sjávarafurðum sem og bókmenntir.
Verkefnið er samstarfsverkefni Íslandsstofu, sendiráðs Íslands í París, sem er jafnframt sendiráð gagnvart Spáni, aðalræðisskrifstofunnar í Barcelona og Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins. Einnig er unnið í samstarfi við Viðskiptaráðið í Barcelona og Ferðamálaráð Barcelona (BarcelonaTourist Board).
Haldinn verður kynningarfundur og móttaka í glæsilegum húsakynnum Viðskiptaráðsins í Barcelona, Casa Llojta de Mar. Yfirskrift fundarins er Ferskir vindar frá Íslandi. Forseti Íslands verður aðalræðumaður en auk þess ávarpar formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins fundinn og síðan fylgja kynningar á ferðaþjónustu, saltfiskafurðum, nýsköpun og bókmenntum. Í móttöku að fundinum loknum verður boðið upp á veitingar úr íslensku hráefni. Auk þessa heldur forsetinn  fyrirlestur í IESE viðskiptaháskólanum, ávarpar bókmenntaviðburð og heimsækir fiskmarkað og verslanir sem selja sjávarafurðir frá Íslandi. 
Sjávarafurðir eru langstærsti hluti vöruútflutnings Íslendinga til Spánar og var verðmæti hans um 22 milljarðar króna árið 2014. Spánn er nú annar verðmætasti markaður fyrir sjávarafurðir frá Íslandi og vega saltaðar þorskafurðir þar þyngst. 
Alls heimsóttu um 21.000 Spánverjar landið árið 2014 sem er 23% aukning frá árinu áður. Um 61% Spánverja heimsækja landið á háönn (júní til ágúst). Sífellt fleiri Spánverjar koma utan háannartíma (jan-maí, sept.- des.) og nam aukning heimsókna utan háannar 28% frá 2013 til 2014.