Gítartónleikar - spænsk tónlist

Argentínskir og spænskir gítartónar

 

 Miðvikudaginn 5. janúar kl. 20 stendur Hispánica, menningarfélag spænskumælandi á Íslandi, og Listvinafélag Seltjarnarneskirkju, fyrir gítartónleikum í suðrænum anda í Seltjarnarneskirkju. Arnaldur Arnarson gítarleikari mun leika tónlist frá Argentínu og Spáni. Fyrri hluti tónleikanna verður helgaður verkum spænsku tónskáldanna Narváez, Sor og Albéniz en eftir hlé verða kynnt verk 20. aldar tónskáldanna Ayala og Guastavino sem báðir voru frá Argentínu. Í hléi verður kynnt léttvín frá Catena víngerðinni í Mendoza við rætur Andesfjalla í Argentínu.

 Arnaldur fæddist í Reykjavík árið 1959. Hann hóf gítarnám í Svíþjóð tíu ára gamall og lauk námi vorið 1977 hjá Gunnari H. Jónssyni frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hann tók lokapróf frá Royal Northern College of Music í Manchester árið 1982 en kennarar hans þar voru gítarleikararnir Gordon Crosskey og John Williams auk gríska píanóleikarans og hljómsveitarstjórans George Hadjinikos. Þá stundaði hann framhaldsnám hjá José Tomás í Alicante á Spáni.

 Arnaldur hefur unnið til fjölda verðlauna í alþjóðlegum keppnum, þ.á m. fyrstu verðlaun í XXI alþjóðlegu Fernando Sor gítarkeppninni í Róm 1992. Sama ár komst hann einn gítarleikara af um hundrað keppendum í úrslit East and West Artists keppninnar í New York. Með flutningi sínum á Concierto de Aranjuez eftir Rodrigo með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1990 og einleikstónleikum á Listahátíð í Reykjavík árið 1992 skipaði hann sér á bekk með fremstu hljóðfæraleikurum Íslands.

Arnaldur hefur búið í Barcelona frá 1984. Þar er hann aðstoðarskólastjóri Luthier tónlistarskólans og kennir jafnframt gítarleik alþjóðlegum hópi nemenda. Hann er umsjónarmaður fyrstu framhaldsgráðu í hljóðfæraleik sem nýtur opinberrar viðurkenningar á Spáni, en hún er veitt af Ramón Llull Háskólanum í Barcelona í samvinnu við Luthier skólann. Hann hefur haldið námskeið í gítarleik og kammertónlist víða um heim, m.a. í Wigmore Hall í Lundúnum, við Háskólann í  Boston og Alfred Schnittke tónlistarháskólann í Moskvu. Hann hefur enn fremur setið í dómnefndum í alþjóðlegum tónlistarkeppnum.

 Miðaverð kr. 1500.

Eldri borgarar eru sérstaklega boðnir velkomnir á tónleikana án aðgangseyris.